
HR Hlaðvarpið
HR-hlaðvarpið er mikilvægur hluti af vísindamiðlun Háskólans í Reykjavík til samfélagsins; allt frá nemendum og starfsfólki til kollega og almennings. Í hlaðvarpinu fjalla vísindafólk, kennarar og aðrir sérfræðingar háskólans um metnaðarfullar rannsóknir sínar og verkefni. HR-hlaðvarpinu er ætlað að næra starfsemi háskólans og miðla í leiðinni fjölbreyttri þekkingu út fyrir veggi hans. Samhliða er skyggnst inn í veröld nemenda og fróðleik miðlað um margvíslega starfsemi í skólanum. HR-hlaðvarpið er í umsjón samskiptasviðs HR (samskipti@hr.is).
HR Hlaðvarpið
HR hlaðvarpið // Pössum púlsinn og veskið í desember
Gestir dagsins í HR hlaðvarpinu eru þau Sigrún Þóra Sveinsdóttir og Valdimar Sigurðsson. Sigrún Þóra er sálfræðingur sérhæfð í lífeðlislegri sálfræði. Hún er doktorsnemi í sálfræðideild Háskólans í Reykjavík og hefur starfað sem leiðtogi sálfræðiþjónustu fullorðinna hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu og sálfræðingur lögreglu. Valdimar er prófessor við Viðskipta- og hagfræðideild og forstöðumaður Rannsóknarseturs HR í markaðsfræði og neytendasálfræði. Rannsóknir hans hafa einkum beinst að neytendahegðun og markaðssetningu á stafrænum miðlum og í verslunarumhverfi tengt matvælum og hollustu.
Við leiddum þau Sigrúnu Þóru og Valdimar saman í spjall um komandi aðventu og jól og fórum um víðan völl. Við ræddum m.a. um jólahefðir, mikilvægi þess að líta inn á við og ákveða hvernig hver og einn vill hafa sín jól, áhrif markaðsafla og jólaösina á Þorláksmessu í Kringlunni. Sigrún Þóra kennir hlustendum einnig einfalda öndunaræfingu sem hægt er að nota jafnt á rauðu ljósi sem og yfir pottunum á aðfangadagskvöld.
Það er María Ólafsdóttir hjá samskiptateymi HR sem ræðir við þau Sigrúnu Þóru og Valdimar. Samskiptateymi HR hefur umsjón með HR hlaðvarpinu (samskipti@ru.is).
HR hlaðvarpið er aðgengilegt á öllum helstu streymisveitum.