
HR Hlaðvarpið
HR-hlaðvarpið er mikilvægur hluti af vísindamiðlun Háskólans í Reykjavík til samfélagsins; allt frá nemendum og starfsfólki til kollega og almennings. Í hlaðvarpinu fjalla vísindafólk, kennarar og aðrir sérfræðingar háskólans um metnaðarfullar rannsóknir sínar og verkefni. HR-hlaðvarpinu er ætlað að næra starfsemi háskólans og miðla í leiðinni fjölbreyttri þekkingu út fyrir veggi hans. Samhliða er skyggnst inn í veröld nemenda og fróðleik miðlað um margvíslega starfsemi í skólanum. HR-hlaðvarpið er í umsjón samskiptasviðs HR (samskipti@hr.is).
HR Hlaðvarpið
Verkfræðivarpið // 10. þáttur: Dr. Ármann Gylfason
Dr. Ármann Gylfason, nýr deildarforseti verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík, er viðmælandi Verkfræðivarpsins að þessu sinni. Sérsvið Ármanns er varma- og straumfræði og eftir hann liggur fjöldi alþjóðlegra vísindagreina. Nú hefur Ármann tekist á hendur nýtt hlutverk sem deildarforseti Verkfræðideildar HR. Í viðtalinu segir hann frá sjálfum sér, kennslunni og rannsóknunum við HR og hvernig allt þetta tvinnast saman. Hann leggur áherslu á mikilvægi verkfræði í samfélaginu og að verkfræðikennsla höfði til unga fólksins með því að gefa því tækifæri til að fást við skemmtileg og krefjandi viðfangsefni sem það hefur sjálft áhuga á.
UM VERKFRÆÐIVARPIÐ
Upphafsmenn Verkfræðivarpsins eru þeir Haukur Ingi Jónasson, Helgi Þór Ingason og Þórður Víkingur Friðgeirsson, sem eru allir kennarar og fræðmenn við verkfræðideild HR. Í þessari sjálfstæðu þáttaspyrpu innan HR hlaðvarpsins leitast þeir við að færa þekkingarsvið verkfræðinnar til almennings og verkfræðinga á mannamáli.
UM HR HLAÐVARPIÐ
HR hlaðvarpið er aðgengilegt á helstu samfélagsmiðlum háskólans og streymisveitunum Spotify og Apple Podcasts og iTunes, ásamt hlaðvarpsveitum á borð við Simplecast, Pocket Casts og Podcast Addict. Það er samskiptateymi HR sem hefur umsjón með HR hlaðvarpinu (samskipti@ru.is). Framleiðandi hlaðvarpsins er Vilhjálmur Siggeirsson.